Vinakot

Framkvæmdastjóri Vinakots, sem rekur heimili fyrir ungmenni með margþættan vanda, hefur óskað eftir því við félagsmálaráðuneytið að eftirlits- og gæðastofnun þess geri úttekt á þeim heimilum sem fyrirtækið rekur. Um er að ræða 3 heimili sem hýsa 6 ungmenni með margþættan vanda.

Vinakot hefur verið starfrækt síðan 2012. Þegar reksturinn var umfangsmestur voru heimilin alls 9. Í fyrra ákvað Aðalheiður Þóra Bragadóttir framkvæmdastjóri að minnka umsvifin m.a. til þess að ná betur utan um reksturinn. Hún segir að þessi starfsemi sé viðkvæm og til þess að tryggja gæði þjónustunnar hafi hún gripið til þess ráðs að fækka heimilunum og tryggja hverjum skjólstæðingi meiri tíma og eftirfylgni.

Aðalheiður Þóra segir að fleiri aðilar reki sambærileg heimili. Hún undirstrikar að það sé mikilvægt að svo sé, enda mikil og brýn þörf fyrir þjónustu sem þessa. Hún segist hafa farið út í rekstur heimila fyrir þennan hóp þjóðfélagsins vegna eigin reynslu af ungmennum með margþættan vanda, sem hefði mátt hjálpa ef heimili af þessu tagi hefðu verið starfrækt á þeim tíma.

„Það má alltaf gera betur. En til þess að fá staðfestingu á því að við séum á réttri vegferð höfum við óskað eftir því að félagsmálaráðuneytið tryggi það að gerð verði úttekt á rekstrinum. Það væri æskilegt að önnur fyrirtæki með sambærilega þjónustu gerðu slíkt hið sama, segir Aðalheiður Þóra Bragadóttir, framkvæmdastjóri Vinakots.