Þegar okkur líður vel þá sendir heilinn skilaboð um að brosa og þegar við brosum þá sendast skilaboð til heilans um að okkur líði vel. Þetta er því hringrás sem getur viðhaldið sjálfri sér. Það gæti því í raun ekki verið einfaldara að kalla fram gleðitilfinningu hjá sjálfum sér. Raunar er það hægt hjá öðrum líka þar sem við speglum oft hegðun annarra, þannig getur bros kallað fram bros.

 

Eitt bros getur breytt degi einhvers, jafnvel manns eigin. Þegar við brosum þá sendast út boðefni til heilans sem segja okkur að okkur líði vel. Brosið þarf ekki að vera einlægt til að það virki, maður kemst upp með “fake it til you make it” þarna. Þegar bros vöðvarnir í andliti okkar dragast saman verður til jákvæð endurgjöf sem leiðir til heilans og styrkir gleði tilfinningu okkar. Bros örvar verðlaunasvæðið í heilanum meira en súkkulaði og þá er nú mikið sagt!

 

Nú er ég ekki að tala um að hunsa tilfinningar sínar þegar manni líður illa eða er í sorg. Það er hollt og gott að gangast við tilfinningum sínum hverju sinni. Því minna sem maður berst á móti þeim því minna vald hafa þær yfir manni. Dæmi um þetta er að þegar maður verður fúll og tekur ákvörðun um að leyfa sér að vera það í t.d. 15 mínútur. Eftir 10 mínútur er maður líklegast orðin þreyttur á að vera fúll og getur tekið sátt sína á ný. Þannig getur maður tekið stjórn á tilfinningum sínum og þær missa mátt sinn.

 

Með því að brosa getur maður tekið stjórn á eigin líðan og aukið vellíðan óháð því hverjar aðstæður eru hverju sinni. Þitt er alltaf valið um það hvernig þú tekur því sem kemur til þín, með brosi eða fýlusvip. Lífið er allskonar og í raun ráðum við fáu í því, en við getum æft okkur í hvernig við bregðumst við því sem gerist. Einnig ráðum við viðhorfum okkar og það eitt og sér getur breytt öllu, eins og hvort vatnsglasið sé hálf fullt eða hálf tómt.

 

Ég óska þér velfarnaðar og brosmildi.