Flestir hafa það markmið í lífinu að verða hamingjusamir. Hamingja er tilfinning sem er eftirsóknarverð en erfitt að útskýra, hún snýr þó að gleði, ánægju og vellíðan. Það er algengur misskilningur að við verðum að eiga peninga, stórt hús eða ferðast um allan heiminn  til að öðlast hamingju. Hamingja felst fremur í því að hafa hlutverk eða tilgang í lífinu. Þessi hlutverk geta verið misjöfn eins og við erum mörg en það að vita að einhverstaðar er einhver sem þarfnast þín er eitthvað sem einstaklingar hafa þörf fyrir ásamt því að vera ánægður og upplifa jákvæðar tilfinningar.

Við sem einstaklingar höfum tilhneigingu til að einblína oftar en ekki á veikleika okkar fremur en styrkleika. Fólki finnst auðveldara að brjóta sjálft sig niður og telja upp galla sína frekar en kosti. Við þurfum að hætta að fókusera á þetta neikvæða og horfa þess í stað á það sem er í lagi, eins og að þekkja eigin styrkleika og kunna að nýta þá. Að þekkja sína aðal styrkleika, vera meðvitaður um þá og prófa að nýta þá betur og oftar getur aukið hamingju einstaklinga til muna. Við höfum fleiri styrkleika en við gerum okkur grein fyrir og ef við förum rétt með þá erum við nær því að vera besta útgáfan af okkur sjálfum, ásamt því að aðrir njóta góðs af þeim.

Með jákvæðu viðhorfi getum við svo margt. Það auðveldar okkur til að mynda daglegt amstur, að yfirstíga hindranir sem lífið hefur upp á að bjóða, rífa okkur upp eftir áföll og erfiðleika og færir okkur skrefinu nær því að vera hamingjusöm. Hamingja hefur jákvæðar afleiðingar á hegðun, hugsun og heilsu fólks og jú, ekki gleyma því að hamingjusamt fólk lifir lengur. Verum jákvæð, gerum góðverk, hrósum og hlægjum – margt smátt gerir eitt stórt. Við lifum bara einu sinni og hvert andartak er dýrmætt, stöldrum við og hugsum hvernig við getum nýtt styrkleika okkar, verið besta útgáfan af okkur sjálfum og látið gott af okkur leiða.

Ástrós Lea Guðlaugsdóttir er starfsmaður í Vinakoti og sálfræðinemi í HR