Þegar nálgast áramótum líta margir yfir farin veg og huga að því sem betur má fara á nýju ári. Mörg okkar setja nýársheit um að bæta, gera meira af eða minna af einhverju.

Góð leið við að setja sér nýársheit sem maður stendur við er að sjá fyrir sér heitin á raunhæfan hátt. Dæmi um slíkt heit er að lesa 12 bækur fyrir lok næsta árs eða 1 bók á mánuði. Hlaupa hálfmaraþon í mars. Borða nammi bara á laugardögum (1 nammidag í viku).

Veldu þér markmið sem þér langar til að vinna að fyrir sjálfan þig, af því að þig langar til að lesa meira en ekki af því að maður á að lesa meira. Hvað langar þig virkilega til að gera á nýju ári?

Gott er að hafa eftirfarandi í huga þegar maður setur sér markmið:

Búðu til markmið sem eru nákvæm og mælanleg

Markmið er eitthvað sem hægt er að strika út af listanum sínum þegar maður hefur náð því. Markmið er afmarkmað og mælanlegt, ég veit þegar ég er búin að lesa 12 bækur yfir árið. Ég veit þegar ég er búin að hlaupa hálfmaraþonið. Ólíkt þegar ég set mér að lesa meira eða hreyfa mig meira, það segir mér ekki hvenær ég hef náð markmiðum mínum. Það er æðisleg tilfinning að ná markmiði, hvort sem það er smávægilegt eða risa og því um að gera að leyfa sér það. Einnig er mikilvægt að setja sér tímamörk, þannig veit maður hver tímaramminn er sem maður hefur til að vinna að markmiði sínu.

Leyfðu þér að finna fyrir árangrinum og að þú hafir áorkað einhverju

Klappaðu þig á bakið fyrir vel unnin störf, hafðu vörður á leiðinni sem hvetja þig áfram og vísa veginn. Ef þú ert að vinna að markmiði þínu um að lesa 12 bækur á árinu, vertu þá ánægður með þig um leið og fyrstu bókinni er lokið. Þegar sjöttu bókinni er lokið þá ertu hálfnaður að því að ná settu markmiði. Það er um að gera að njóta þess að vinna að markmiði sínu, annars verður það kvöð og það er eitthvað allt annað.

Þekktu takmörk þín og ekki láta bakslag setja þig útaf sporinu

Ekki gefast upp þó þú farir aðeins útaf leið, þó þú takir tvo svindldaga þegar þú ætlaðir að taka bara einn. Notaðu hvern dag, hverja viku til að reyna betur. Það þarf ekki að hætta við allt þó maður fari aðeins útaf leið, maður fer þá bara aftur inn á og reynir betur næst. Litlu sigrarnir verða að stórum sigrum þegar á líður. 

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er aðeins eitt sem greinir á milli þeirra sem ná árangri og þeirra sem gera það ekki, þeir sem ná árangri hætta aldrei að reyna. Lykillinn er því þrautsegja, þolinmæði og trú á að manni muni takast, ef ekki í dag þá á morgun.

Við hjá Vinakoti þökkum fyrir árið sem er að líða og óskum samstarfsaðilum, þjónustuþegum, aðstandendum og landsmönnum farsældar á nýju ári. Verum góð við hvort annað og hjálpumst að við að gera heiminn að betri stað á degi hverjum.

Ein getum við margt, en saman getum við svo miklu meira.