Vinakot ætlar að bjóða upp á dagskrá í Þjónustumiðstöðinni í sumar.

Verður opið frá 08:00 – 16:00 fyrir krakka á grunn- og framhaldsskólaaldri

Til að fá frekari upplýsingar er hægt að senda fyrirspurn á netfangið vinakot@vinakot.is

Vinakot

Framkvæmdastjóri Vinakots, sem rekur heimili fyrir ungmenni með margþættan vanda, hefur óskað eftir því við félagsmálaráðuneytið að eftirlits- og gæðastofnun þess geri úttekt á þeim heimilum sem fyrirtækið rekur. Um er að ræða 3 heimili sem hýsa 6 ungmenni með margþættan vanda.

Vinakot hefur verið starfrækt síðan 2012. Þegar reksturinn var umfangsmestur voru heimilin alls 9. Í fyrra ákvað Aðalheiður Þóra Bragadóttir framkvæmdastjóri að minnka umsvifin m.a. til þess að ná betur utan um reksturinn. Hún segir að þessi starfsemi sé viðkvæm og til þess að tryggja gæði þjónustunnar hafi hún gripið til þess ráðs að fækka heimilunum og tryggja hverjum skjólstæðingi meiri tíma og eftirfylgni.

Aðalheiður Þóra segir að fleiri aðilar reki sambærileg heimili. Hún undirstrikar að það sé mikilvægt að svo sé, enda mikil og brýn þörf fyrir þjónustu sem þessa. Hún segist hafa farið út í rekstur heimila fyrir þennan hóp þjóðfélagsins vegna eigin reynslu af ungmennum með margþættan vanda, sem hefði mátt hjálpa ef heimili af þessu tagi hefðu verið starfrækt á þeim tíma.

„Það má alltaf gera betur. En til þess að fá staðfestingu á því að við séum á réttri vegferð höfum við óskað eftir því að félagsmálaráðuneytið tryggi það að gerð verði úttekt á rekstrinum. Það væri æskilegt að önnur fyrirtæki með sambærilega þjónustu gerðu slíkt hið sama, segir Aðalheiður Þóra Bragadóttir, framkvæmdastjóri Vinakots.

Meistaranemar í klíniskri sálfræði úr Háskóla Íslands komu síðastliðið föstudagskvöld, 3. febrúar, á fræðslukvöld í Vinakoti. Þau fengu kynningu á Vinakoti þar sem farið var yfir upphaf Vinakots, starfið og þróun þess og þá hugmyndafræði sem við vinnum eftir.

Að kynningu lokinni voru líflegar umræður þar sem sálfræðingar Vinakots gátu miðlað af reynslu sinni til verðandi sálfræðinga.

Vel heppnað kvöld í alla staði og þökkum við fyrir skemmtilega heimsókn.

Sálfræðisvið Vinakots býður upp á samskiptanámskeið. Námskeiðið er fyrir alla sem vinna með börnum og unglingum. Það hentar vel fyrir stuðningsfulltrúa í skólum, ráðgjafa í búsetuúrræðum og starfsmenn félagsmiðstöðva og frístundaheimila.

Námskeiðið miðar að þeim ungmennum sem eiga erfitt uppdráttar í hópi, sýna erfiða og krefjandi hegðun í hópi og hafa lítinn sem engan áhuga á að tengjast starfsmönnum. Farið er yfir hvernig gott er að nálgast þennan hóp, hvernig við sem starfsmenn þurfum að vera innstillt í samskiptum okkar og hvað við þurfum að varast.

Markmið námskeiðsins er að auka færni þátttakenda í samskiptum við ungmenni.

Sálfræðingar Vinakots, Pétur Örn Svansson og Elvar Friðriksson, settu saman námskeiðið og hafa haldið það í ýmsum skólum við góðan orðstír.

Fyrir frekari upplýsingar eða bókanir má hafa samband í gegnum tölvupóst á petur@vinakot.is

Verkefnum fjölgar stöðugt hjá okkur og því leitum við hjá Vinakoti eftir öflugum RÁÐGJÖFUM til starfa í vaktavinnu með ungmenni með fjölþættan vanda.

Helstu verkefni og ábyrgð
• Þátttaka í einstaklingsáætlunum og teymisvinnu
• Hvetja og styðja ungmennin til sjálfstæðis og virkni
• Umönnun og félagslegur stuðningur
• Vera fyrirmynd fyrir ungmennin
• Almennt heimilishald

Hæfniskröfur
• Áhugi og metnaður fyrir að starfa með unglingum með fjölþættan vanda
• Reynsla af því að starfa með fólki
• Sveigjanleika og færni í mannlegum samskiptum
• Þekking á einhverfu er æskileg
• Menntun sem nýtist í starfi er æskileg
• Hreint sakavottorð í samræmi við lög
• 23 ára eða eldri

Aðrir þættir eru máli skipta
• Hæfni til að takast á við óvæntar aðstæður
• Frumkvæði, jákvæðni og áhugasemi í starfi

Bæði kynin eru hvött til að sækja um starfið. Starfshlutfall er breytilegt og ráðið er til framtíðar. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst. Laun eru samkvæmt kjarasamingum Vinakots við SFR.

Umsókn ásamt ferilskrá skal senda á starf@vinakot.is merkt “RÁÐGJAFI”
Nánari upplýsingar um starfið veitir Sóley Kristjánsdóttir, mannauðsstjóri, soley@vinakot.is og Jóhanna Margrét Fleckenstein, forstöðumaður, johanna@vinakot.is.

– Fagmennska, umhyggja og traust eru gildin sem við vinnum eftir –

Við erum flutt í nýtt og rýmra skrifstofuhúsnæði í Síðumúla 28.

Á skrifstofunni eru sálfræðingar okkar tveir, ráðgjafa þroskaþjálfi, forstöðumaður, mannauðsstjóri, bókari og framkvæmdarstjóri. Deildarstjórar hafa einnig hér vinnuaðstöðu og sérkennari. Viðtöl við sálfræðinga og ráðgjafa þroskaþjálfa fara nú fram hér í góðu tómi.

Fræðslur fyrir starfsmenn munu einnig fara fram hér í Síðumúla, en við erum með gott fundarrými sem nýtist sem skólastofa þegar svo ber við. Fyrsta slíka fræðslan verður á morgun, þá verður upprifjunarnámskeið um öryggismál.

 

 

 

Þegar okkur líður vel þá sendir heilinn skilaboð um að brosa og þegar við brosum þá sendast skilaboð til heilans um að okkur líði vel. Þetta er því hringrás sem getur viðhaldið sjálfri sér. Það gæti því í raun ekki verið einfaldara að kalla fram gleðitilfinningu hjá sjálfum sér. Raunar er það hægt hjá öðrum líka þar sem við speglum oft hegðun annarra, þannig getur bros kallað fram bros.

 

Eitt bros getur breytt degi einhvers, jafnvel manns eigin. Þegar við brosum þá sendast út boðefni til heilans sem segja okkur að okkur líði vel. Brosið þarf ekki að vera einlægt til að það virki, maður kemst upp með “fake it til you make it” þarna. Þegar bros vöðvarnir í andliti okkar dragast saman verður til jákvæð endurgjöf sem leiðir til heilans og styrkir gleði tilfinningu okkar. Bros örvar verðlaunasvæðið í heilanum meira en súkkulaði og þá er nú mikið sagt!

 

Nú er ég ekki að tala um að hunsa tilfinningar sínar þegar manni líður illa eða er í sorg. Það er hollt og gott að gangast við tilfinningum sínum hverju sinni. Því minna sem maður berst á móti þeim því minna vald hafa þær yfir manni. Dæmi um þetta er að þegar maður verður fúll og tekur ákvörðun um að leyfa sér að vera það í t.d. 15 mínútur. Eftir 10 mínútur er maður líklegast orðin þreyttur á að vera fúll og getur tekið sátt sína á ný. Þannig getur maður tekið stjórn á tilfinningum sínum og þær missa mátt sinn.

 

Með því að brosa getur maður tekið stjórn á eigin líðan og aukið vellíðan óháð því hverjar aðstæður eru hverju sinni. Þitt er alltaf valið um það hvernig þú tekur því sem kemur til þín, með brosi eða fýlusvip. Lífið er allskonar og í raun ráðum við fáu í því, en við getum æft okkur í hvernig við bregðumst við því sem gerist. Einnig ráðum við viðhorfum okkar og það eitt og sér getur breytt öllu, eins og hvort vatnsglasið sé hálf fullt eða hálf tómt.

 

Ég óska þér velfarnaðar og brosmildi.

Það eina sem greinir á milli þeirra sem ná árangri og þeirra sem gera það ekki er að þeir sem ná árangri hætta aldrei að reyna. Á bakvið árangur liggja margar árangurslausar tilraunir. Sumir kalla það mistök, en einnig má líta á það sem æfingar. Málshátturinn segir að æfingin skapar meistarann og því þá ekki að líta á lífið sem æfingu?

Þeir sem ná árangri í lífinu, hvernig svo sem árangur er skilgreindur, eru líka þeir sem þora að fara út fyrir þægindaramma sinn. Það er ekki alltaf þægilegt að gera hluti í fyrsta skipti og vita ekki hvað muni verða. Mörgum finnst til dæmis ekki þægilegt að tala við ókunnuga en ef maður þorir að taka skrefið þá gæti maður eignast nýjan vin. Eftir því sem við eldumst reynist okkur erfiðara að fara út fyrir þennan svo kallaða þægindaramma sem við höfum skapað okkur í gegnum árin. Lífið tekur við og maður festist í sína eigin rútínu. Það er ekkert að því og ef maður er sáttur þar þá er það mjög ánægjulegt. Ef maður er hins vegar ekki sáttur þá er um að gera að skora á sig og skoða hvað er að gerast fyrir utan rammann.

Maður sér það hjá börnum hvernig þau eru stöðugt að æfa sig og gefast ekki upp á að reyna. Eins og að læra að labba, lesa og skrifa – allt hlutir sem flestir fullorðnir gera án þess að hugsa en börnin æfa og æfa þar til þau ná því. Þegar að börn taka sín fyrstu skref eru þau óstöðug í fyrstu og detta út um allt, samt halda þau áfram. Þannig lærðum við að labba, lesa og skrifa. Ef við þyrftum að læra að labba á fullorðins árum er alls ekki ólíklegt að mörg okkar myndu gefast fljótt upp: “Ég er bara ekki týpan sem labba” gætu einhverjir haldið.

Færnin til að læra fer aldrei frá okkur og á meðan við munum það þá heldur lífið áfram að koma okkur á óvart. Steve Jobs, stofnandi Apple, sagði: “Um leið og maður áttar sig á því að heimurinn er fullur af fólki sem er ekkert mikið klárari en maður sjálfur, þá er maður komin með lykilinn í hendi sér að öllu því sem maður getur óskað sér”. Notum þennan lykil, æfum okkur og leyfum okkur að verða þeirrar gæfu aðnjótandi að láta lífið stöðugt koma okkur á óvart.

Góðar stundir að sinni!

Þegar nálgast áramótum líta margir yfir farin veg og huga að því sem betur má fara á nýju ári. Mörg okkar setja nýársheit um að bæta, gera meira af eða minna af einhverju.

Góð leið við að setja sér nýársheit sem maður stendur við er að sjá fyrir sér heitin á raunhæfan hátt. Dæmi um slíkt heit er að lesa 12 bækur fyrir lok næsta árs eða 1 bók á mánuði. Hlaupa hálfmaraþon í mars. Borða nammi bara á laugardögum (1 nammidag í viku).

Veldu þér markmið sem þér langar til að vinna að fyrir sjálfan þig, af því að þig langar til að lesa meira en ekki af því að maður á að lesa meira. Hvað langar þig virkilega til að gera á nýju ári?

Gott er að hafa eftirfarandi í huga þegar maður setur sér markmið:

Búðu til markmið sem eru nákvæm og mælanleg

Markmið er eitthvað sem hægt er að strika út af listanum sínum þegar maður hefur náð því. Markmið er afmarkmað og mælanlegt, ég veit þegar ég er búin að lesa 12 bækur yfir árið. Ég veit þegar ég er búin að hlaupa hálfmaraþonið. Ólíkt þegar ég set mér að lesa meira eða hreyfa mig meira, það segir mér ekki hvenær ég hef náð markmiðum mínum. Það er æðisleg tilfinning að ná markmiði, hvort sem það er smávægilegt eða risa og því um að gera að leyfa sér það. Einnig er mikilvægt að setja sér tímamörk, þannig veit maður hver tímaramminn er sem maður hefur til að vinna að markmiði sínu.

Leyfðu þér að finna fyrir árangrinum og að þú hafir áorkað einhverju

Klappaðu þig á bakið fyrir vel unnin störf, hafðu vörður á leiðinni sem hvetja þig áfram og vísa veginn. Ef þú ert að vinna að markmiði þínu um að lesa 12 bækur á árinu, vertu þá ánægður með þig um leið og fyrstu bókinni er lokið. Þegar sjöttu bókinni er lokið þá ertu hálfnaður að því að ná settu markmiði. Það er um að gera að njóta þess að vinna að markmiði sínu, annars verður það kvöð og það er eitthvað allt annað.

Þekktu takmörk þín og ekki láta bakslag setja þig útaf sporinu

Ekki gefast upp þó þú farir aðeins útaf leið, þó þú takir tvo svindldaga þegar þú ætlaðir að taka bara einn. Notaðu hvern dag, hverja viku til að reyna betur. Það þarf ekki að hætta við allt þó maður fari aðeins útaf leið, maður fer þá bara aftur inn á og reynir betur næst. Litlu sigrarnir verða að stórum sigrum þegar á líður. 

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er aðeins eitt sem greinir á milli þeirra sem ná árangri og þeirra sem gera það ekki, þeir sem ná árangri hætta aldrei að reyna. Lykillinn er því þrautsegja, þolinmæði og trú á að manni muni takast, ef ekki í dag þá á morgun.

Við hjá Vinakoti þökkum fyrir árið sem er að líða og óskum samstarfsaðilum, þjónustuþegum, aðstandendum og landsmönnum farsældar á nýju ári. Verum góð við hvort annað og hjálpumst að við að gera heiminn að betri stað á degi hverjum.

Ein getum við margt, en saman getum við svo miklu meira.

Jólin eru sérstakur tími og mörg erum við vanaföst um jólin. Flestir eiga sínar uppáhalds jólamyndir og geta jólin ekki byrjað fyrr en það er búið að horfa á Home Alone 1 og 2. Myndum 3, 4 og 5 er sleppt því þær voru lélegar. Sumir baka sörur og þrífa loksins hnífaparaskúffuna á meðan aðrir láta sér nægja að kíkja á jólatónleika.

Jólin eru tími þar sem kærleiksrík gildi eru í hávegum höfð. Gjafmildi, gleði og hlýja. En jólunum fylgir oft mikil streita og fyrir suma er þetta erfiðasti tími ársins sem einkennist af einmanaleika, kvíða og ótta.

Látum gott af okkur leiða yfir hátíðina, umvefjum þá sem minna mega sín, verum góð hvert við annað og framlengjum þessum góðu gildum langt inn í nýja árið.

Við hjá Vinakoti sendum landsmönnum nær og fjær okkar bestu jólakveðjur. Við þökkum öllum okkar samstarfsaðilum, þjónustuþegum og aðstandendum fyrir samstarfið á árinu og hlökkum til frekari ævintýra á því næsta.

Hafið það sem allra best um jólin,

Starfsfólk Vinakots