Það eina sem greinir á milli þeirra sem ná árangri og þeirra sem gera það ekki er að þeir sem ná árangri hætta aldrei að reyna. Á bakvið árangur liggja margar árangurslausar tilraunir. Sumir kalla það mistök, en einnig má líta á það sem æfingar. Málshátturinn segir að æfingin skapar meistarann og því þá ekki að líta á lífið sem æfingu?

Þeir sem ná árangri í lífinu, hvernig svo sem árangur er skilgreindur, eru líka þeir sem þora að fara út fyrir þægindaramma sinn. Það er ekki alltaf þægilegt að gera hluti í fyrsta skipti og vita ekki hvað muni verða. Mörgum finnst til dæmis ekki þægilegt að tala við ókunnuga en ef maður þorir að taka skrefið þá gæti maður eignast nýjan vin. Eftir því sem við eldumst reynist okkur erfiðara að fara út fyrir þennan svo kallaða þægindaramma sem við höfum skapað okkur í gegnum árin. Lífið tekur við og maður festist í sína eigin rútínu. Það er ekkert að því og ef maður er sáttur þar þá er það mjög ánægjulegt. Ef maður er hins vegar ekki sáttur þá er um að gera að skora á sig og skoða hvað er að gerast fyrir utan rammann.

Maður sér það hjá börnum hvernig þau eru stöðugt að æfa sig og gefast ekki upp á að reyna. Eins og að læra að labba, lesa og skrifa – allt hlutir sem flestir fullorðnir gera án þess að hugsa en börnin æfa og æfa þar til þau ná því. Þegar að börn taka sín fyrstu skref eru þau óstöðug í fyrstu og detta út um allt, samt halda þau áfram. Þannig lærðum við að labba, lesa og skrifa. Ef við þyrftum að læra að labba á fullorðins árum er alls ekki ólíklegt að mörg okkar myndu gefast fljótt upp: “Ég er bara ekki týpan sem labba” gætu einhverjir haldið.

Færnin til að læra fer aldrei frá okkur og á meðan við munum það þá heldur lífið áfram að koma okkur á óvart. Steve Jobs, stofnandi Apple, sagði: “Um leið og maður áttar sig á því að heimurinn er fullur af fólki sem er ekkert mikið klárari en maður sjálfur, þá er maður komin með lykilinn í hendi sér að öllu því sem maður getur óskað sér”. Notum þennan lykil, æfum okkur og leyfum okkur að verða þeirrar gæfu aðnjótandi að láta lífið stöðugt koma okkur á óvart.

Góðar stundir að sinni!